Þorlákshafnar-Þórsarar eru úr leik í Lengjubikar karla í körfubolta en þeir töpuðu 98-77 gegn Keflavík í 8-liða úrslitunum í kvöld.
Þórsarar misstu leikinn úr höndunum strax í 1. leikhluta. Keflvíkingar leiddu strax frá upphafi en gerðu svo 14-2 áhlaup undir lok leikhlutans og náðu þá 14 stiga forystu, 24-10. Forskot heimamanna hélst svipað í 2. og 3. leikhluta en staðan í hálfleik var 52-39.
Tólf stig skildu liðin að í upphafi síðasta fjórðungsins en Keflavík hóf leikhlutann á 18-7 áhlaupi og staðan var þá orðin 91-68. Þórsarar áttu ekki afturkvæmt eftir það og lokatölur urðu 98-77.
Mike Cook Jr. var stigahæstur hjá Þór með 32 stig og 10 fráköst. Nemanja Sovic skoraði 17 stig, Emil Karel Einarsson 9, Ragnar Nathanaelsson 7, Halldór Hermannsson 5, Tómas Heiðar Tómasson 4 og Davíð Arnar Ágústsson 3.