Þór vann sætan sigur á ÍR í Domino's-deild karla í körfubolta í Þorlákshöfn í kvöld. ÍR leiddi stærstan hluta leiksins en Þór vann með einu stigi, 79-78.
Leikurinn var hnífjafn allan tímann og ÍR-ingar yfir lengst af. Staðan í hálfleik var 35-39 og að loknum 3. leikhluta leiddu ÍR-ingar 59-60.
Þór skoraði sjö fyrstu stigin í 4. leikhluta og komst yfir í annað skiptið í leiknum, 66-60. Heimamenn létu forystuna ekki af hendi eftir þetta en ÍR fyldi þeim eins og skugginn. Gestirnir skoruðu fjögur síðustu stigin í leikunum og náðu að minnka muninn í 79-78 sem reyndust lokatölur leiksins.
Ragnar Nathanaelsson átti enn einn stórleikinn og var besti maður vallarins með 27 stig og 22 fráköst. Mike Cook Jr. skoraði 17 stig, Baldur Þór Ragnarsson og Nemanja Sovic 11 auk þess sem Nemanja tók 13 fráköst. Þorsteinn Már Ragnarsson skoraði 7 stig og Tómas Heiðar Tómasson 6.
Þórsarar fara inn í jólafríið í 7. sæti deildarinnar með 12 stig.