Stjórn Glímusambands Íslands hefur útnefnt Þorgils Kára Sigurðsson, HSK og Guðrúnu Ingu Helgadóttir, HSK efnilegasta glímufólkið fyrir árið 2013.
Þorgils Kári er 15 ára og hefur verið duglegur að keppa á mótum Glímusambandsins undanfarin ár. Hann er jafnvígur á sókn og vörn í glímu og hefur gengið vel í keppni á undanförnum árum. Þorgils Kári er mikill keppnismaður sem virðir gildi glímunnar og er til fyrirmyndar jafnt innan vallar sem utan.
Guðrún Inga hefur tekið þátt í flestöllum glímumótum sem GLÍ hefur staðið fyrir undanfarin ár og staðið sig með sóma. Hún var meðal annars í veðlaunasætum á Evrópumeistaramótinu í glímu og keltneskum fangbröðgum sem fram fór á Íslandi í vor. Guðrún Inga stundar glímuna samviskusamlega og hefur æft vel undanfarin ár og veit að það er vænlegast til árangurs. Hún er til fyrirmyndar jafnt innan vallar sem utan.