Stokkseyri vann öruggan sigur á Skautafélagi Reykjavíkur þegar liðin mættust í kvöld á Stokkseyrarvelli í B-riðli 4. deildar karla í knattspyrnu.
Heimamenn voru eldhressir í upphafi leiks og skoruðu þrjú mörk á átta mínútna kafla. Þórhallur Aron Másson skoraði á 4. og 10. mínútu og Örvar Hugason bætti þriðja marki Stokkseyrar við á 12. mínútu úr stórkostlegri aukaspyrnu.
Það tók svo aðeins bitið úr sóknarleik Stokkseyrar að Þórhalli var vísað af velli með rautt spjald á 29. mínútu. Dómari leiksins vildi meina að hann hafi hrækt í átt að andstæðingi en Stokkseyringar voru mjög óhressir með þennan dóm.
Fimm mínútum síðar skoraði Skautafélagið og staðan var 3-1 í hálfleik.
Þrátt fyrir að vera manni færri var leikurinn í ágætis jafnvægi í síðari hálfleik. Bergur Dan Gunnarsson kom Stokkseyri í 4-1 á 79. mínútu en gestirnir minnkuðu muninn á 88. mínútu og lokatölur urðu 4-2.
Stokkseyri er í 5. sæti riðilsins með 10 stig en SR er í 7. sæti með 3 stig.