Unglingaflokkur Þórs/Hamars í körfubolta er kominn í úrslitaleik bikarkeppninnar eftir öruggan sigur á ÍR í gærkvöldi 99-72.
Eins og tölurnar gefa til kynna voru Sunnlendingar töluvert betri í leiknum. Nokkuð jafnræði var í 1. leikhluta en Þór/Hamar náði 14 stiga forskoti í 2. leikhluta og leiddi í hálfleik 45-36 þar sem ÍR-ingar gerðu 5 síðustu stig hálfleiksins.
Frábær byrjun á seinni hálfleik gerði síðan út um leikinn þar sem Þór/Hamar fékk hvert hraðaupphlaupið á eftir öðru. ÍR-ingar náðu ekki að halda í við Sunnlendinga og fór munurinn mest í 30 stig fljótlega í 4. leikhluta, 84-54.
Þorsteinn Ragnarsson var stigahæstur í liði Þórs/Hamars með 29 stig, Mikael Kristjánsson skoraði 20, Oddur Ólafsson 18, Emil Einarsson 14, Erlendur Stefánsson 10, Halldór Garðar Hermannsson 4 og þeir Sveinn Gunnarsson og Bjartmar Halldórsson skoruðu báðir 2 stig. Vilhjálmur Björnsson og Eyþór Heimisson léku einnig en skoruðu ekki.
Úrslitaleikurinn fer fram um næstu helgi.