Um helgina er leikið til úrslita í þýsku bikarkeppninni í handbolta. Þórir Ólafsson og félagar hans í TuS N-LÜbbecke leika gegn heimamönnum í Hamburg kl. 13:15 í dag.
Í hinni undanúrslitaviðureigninni mætast Gummersbach og Rein-Nechar Löwen. Sigurliðin úr þessum tveimur leikjum mætast svo í úrslitaleik á sunnudag.
„Þetta er í fyrsta sinn sem liðið kemst í fjögurra liða úrslit og það er stór draumur að rætast að komast hingað til Hamburg,“ sagði Þórir í samtali við sunnlenska.is „Gengi okkar hefur verið þokkalegt undanfarið þó að okkur gangi erfiðlega að ná í stig á útivelli. En ég er í það minnsta ferskur,“ sagði Þórir léttur í lund, en hann er fyrirliði TuS N-Lübbecke.
Þórir er langt í frá eini Íslendingurinn í Hamburg en Heiðmar Felixson er liðsfélagi hans. Róbert Gunnarsson leikur með Gummersbach gegn Rínarljónunum þeim Ólafi Stefánssyni, Snorra Steini Guðjónssyni og Guðjóni Val Sigurðssyni.