Selfyssingnum Þóri Ólafssyni, landsliðsmanni í handknattleik, stendur til boða nýr tveggja ára samningur við þýska 1. deildar liðið Tus-N-Lübbecke.
„Ég vildi skrifa undir fyrir áramót en forráðamenn liðsins ákváðu að bíða svo ég skrifa væntanlega undir eftir HM,“ sagði Þórir í samtali við Morgunblaðið í gær.
Þórir hefur verið í herbúðum Lübbecke í tæp sex ár, frá því um mitt ár 2005. „Ég kann vel við mig hjá félaginu og hef ekkert velt fyrir að róa á önnur mið á meðan mér stendur til boða að vera áfram hjá félaginu, sagði Þórir sem verið hefur fyrirliði Lübbecke síðustu tvö ár.