Selfyssingarnir Þórir Ólafsson og Guðmundur Árni Ólafsson mættust í gær í Meistaradeild Evrópu í handknattleik með liðum sínum Vive Kielce og Bjerringbro/Silkeborg.
Þórir og félagara hans í Kielce höfðu betur í viðureigninni, 37-29, en liðin mættust í Póllandi. Þórir skoraði fimm mörk í leiknum en Guðmundur Árni skoraði tvö mörk fyrir danska liðið.
Þetta er að líkindum í fyrsta sinn sem þessir fyrrverandi sveitungar á Selfossi mætast í kappleik í handknattleik en þeir leika sömu stöðuna á vellinum, þ.e. í hægra horni.
Með sigrinum komst Vive Kielce upp í fjórða sæti í B-riðli Meistaradeildarinnar. Liðið hefur fjögur stig að loknum fjórum leikjum en Bjerringbro/Silkeborg rekur lestina í riðlinum og er enn án stiga.
Þórir og félagar gerðu út um leikinn í fyrri hálfleik þegar þeir náðu sjö marka forskoti, 21-14. Eftir það höfðu þeir leikinn í öruggum höndum enda vel studdir af um 4.000 áhorfendum sem troðfylltu íþróttahöllina í Kielce.