Þórir Hergeirsson, þjálfari heims- Evrópu og ólympíumeistara Noregs í kvennahandknattleik hélt fyrirlestur í gærkvöldi í Fjölbrautarskóla Suðurlands sem var einn af dagskrárliðum Landsmóts UMFÍ.
Fyrirlesturinn var undir yfirskriftinni ,,Leiðin á toppinn“ markmiðsetningar, gildi og heildræn þjálfun, og var hann ágætlega sóttur.
Þórir, sem er meðal bestu þjálfara heims, hóf sem ungur piltur handboltaiðkun sína á Selfossi. Á fyrirlestrinum fjallaði hann um þá þætti sem skipta hvað mestu til þess að verða góður í íþróttum og ná markmiðum sínum.
Í dag kl. 18 mun Vésteinn Hafsteinsson vera með fyrirlestur undir yfirskriftinni ,,Æfingin skapar meistarann“ með vilja, trú og þolinmæði er allt mögulegt.
Vésteinn fjallar um þau atriði frá sínum íþrótta og þjálfaraferli sem skipt hafa sköpum í að ná árangri. Hann byrjaði sem lítill strákur í Grýlupottahlaupinu á Selfossi, varð kringlukastari á heimsmælikvarða og síðar einn af bestu frjálsíþróttaþjálfurum heims.