Þórir Ólafsson var markahæstur í liði TuS N-Lübbecke en liðið gerði jafntefli við Düsseldorf í þýsku úrvalsdeildinni í dag, 22-22.
Lengi vel stefndi í fyrsta útisigur Lübbecke á tímabilinu en liðið leiddi í hálfleik, 10-13. Lübbecke leiddi 17-20 þegar rúmar níu mínútur voru eftir en heimamenn jöfnuðu 20-20 þremur mínútum síðar.
Lokakaflinn var æsispennandi en liðunum voru mislagðar hendur í sókninni. Heiðmar Felixson skoraði kom Lübbecke í 21-22 á lokamínútunni en heimamenn jöfnuðu þegar 8 sekúndur voru eftir og þar við sat.
Þórir Ólafsson skoraði sex mörk í leiknum og Heiðmar Felixson fimm. Sturla Ásgeirsson skoraði tvö mörk fyrir Düsseldorf.