Þór lagði FSu 87-100 í hörkuleik í 1. deild karla í körfubolta í kvöld. Liðin mættust á Selfossi.
Leikurinn var jafn í fyrri hálfleik en Þórsarar byrjuðu betur og skoruðu 8 fyrstu stigin. Gestirnir náðu mest 17-29 forskoti í upphafi 2. leikhluta en þá komu Selfyssingar til baka og minnka muninn í fjögur stig fyrir leikhlé, 42-46.
Þórsarar tóku frumkvæðið aftur í upphafi síðari hálfleiks en gekk illa að hrista baráttuglaða skólapiltana af sér. Munurinn var tólf stig í upphafi 4. leikhluta, 62-74, en þá kom góður kafli FSu sem skoraði 10 stig í röð og minnkaði muninn í tvö stig, 72-74. Þá vöknuðu Þórsarar aftur, Vladimir Bulut setti niður tvo þrista í röð en hann var drjúgur á lokakaflanum þar sem hann skoraði fimmtán stig.
Þegar tvær mínútur voru eftir var munurinn fjögur stig, 87-91, en Þórsarar voru sterkari á lokasprettinum og skoruðu síðustu níu stigin í leiknum.
Í liði FSu var Valur Orri Valsson stigahæstur með 22 stig, Guðmundur Gunnarsson raðaði niður þristunum og skoraði 14 stig, Sæmundur Valdimarsson 12 og Björn Kristjánsson 10 í sínum fyrsta leik fyrir liðið.
Vladimir Bulut var stigahæstur Þórsara með 30 stig, Eric Palm skoraði 26 og Þorsteinn Ragnarsson 13.