Þór Þorlákshöfn vann öruggan sigur á botnliði Snæfells þegar liðin mættust í Stykkishólmi í Domino’s-deild karla í körfubolta í kvöld, 68-99.
Fyrsti leikhlutinn var jafn en síðan tóku Þórsarar til sinna ráða og byggðu upp gott forskot í 2. leikhluta. Staðan var 39-56 í hálfleik.
Leikurinn var í járnum í upphafi 3. leikhluta en Þórsara höfðu áfram undirtökin og gerðu svo endanlega út um leikinn með góðum kafla í síðasta fjórðungnum, þar sem Snæfellingar skoruðu aðeins tíu stig.
Þórsarar hafa nú 18 stig í 4. sæti deildarinnar en Snæfellingar mega nánast teljast fallnir úr deildinni, en liðið hefur ekki unnið leik í vetur.
Tölfræði Þórs: Tobin Carberry 21 stig/14 fráköst/7 stoðsendingar, Ragnar Bragason 18 stig, Grétar Ingi Erlendsson 17 stig/7 fráköst, Halldór Hermannsson 10 stig/7 stoðsendingar, Maciej Baginski 10 stig, Ólafur Jónsson 8 stig/5 fráköst, EmilEinarsson 8 stig/9 fráköst, Benjamín Þorri Benjamínsson 3 stig, Davíð Arnar Ágústsson 2 stig, Styrmir Þrastarson 2 stig.