Þórsarar bognuðu og Grindavík sigraði

Grindvíkingar eru Íslandsmeistarar í körfubolta eftir nauman sigur á Þór í fjórða leik liðanna í Þorlákshöfn í kvöld. Lokatölur voru 72-78.

Gestirnir byrjuðu betur og leiddu 15-20 að loknum 1. leikhluta en Þórsarar svöruðu fyrir sig í 2. leikhluta og komust yfir áður en hálfleiksflautan gall, 36-33.

Grindvíkingar náðu forskoti í 3. leikhluta, 53-59 og síðasti leikhlutinn var æsispennandi. Þórsarar komust yfir, 68-67, þegar rúmar þrjár mínútur voru eftir en gekk illa að láta kné fylgja kviði.

Grindavík fékk auðvelda körfu í kjölfarið og Þórsarar hittu ekki úr sínum skotum. Þeir knúðu Grindvíkinga á vítalínuna á síðustu mínútunum en brást jafnan bogalistin í sókninni á eftir. Þó að Þórsarar hafi bognað á þessum kafla brotnuðu þeir ekki og reyndu sitt ítrasta fram á síðustu sekúndur leiksins en Grindvíkingar voru sterkari.

Grindvíkingar sigruðu því 3-1 í einvíginu en þrátt fyrir tapið geta Ölfusingar verið stoltir af sínum mönnum sem náðu í vetur besta árangri nýliða í deildinni frá því úrslitakeppnin var sett á laggirnar.

Darrin Govens var stigahæstur Þórsara í kvöld með 26 stig, Joseph Henley skoraði 17, Blagoj Janev 10, Baldur Þór Ragnarsson 8, Guðmundur Jónsson 5, Darri Hilmarsson 4 og Grétar Ingi Erlendsson 2.

Fyrri greinFatnaður í óskilum hjá löggunni
Næsta greinMenningarstúka á Eyrarbakkavelli