Þór Þorlákshöfn hefur fengið tvo nýja leikmenn fyrir lokasprettinn í 1. deild karla í körfubolta.
Það eru þeir Elvar Guðmundsson og Hallgrímur Brynjólfsson. Þórsarar kannast vel við báða leikmennina en Elvar lék með Þór tímabilið 2008-2009 en hann lék með ÍR á síðasta tímabili.
Hallgrím þarf vart að kynna en hann er uppalinn hjá félaginu og lék með Þór til langs tíma en auk þess hefur hann leikið með Hamri í Hveragerði. Hallgrímur hefur undanfarið stundað nám í Danmörku en verður á Íslandi í starfsnámi næstu 10 vikurnar og mun klára tímabilið með Þórsurum.
Báðir hafa þeir leikið einn leik með Þór á tímabilinu. Elvar gegn FSu sl. föstudagskvöld en Hallgrímur lék einn leik með liðinu fyrir áramót.
Þórsarar urðu fyrir áfalli á dögunum þegar Hjalti Valur Þorsteinsson meiddist á hné og verður hann að öllum líkindum frá út tímabilið.