Þór Þorlákshöfn tapaði illa fyrir Haukum þegar liðið fór í heimsókn að Ásvöllum í kvöld. Haukar unnu 96-64.
Haukar voru mun sterkari í fyrri hálfleik og leiddu í leikhléi, 53-32. Ófarir Þórsara héldu áfram í 3. leikhluta þar sem þeir skoruðu aðeins átta stig og staðan var 79-40 þegar síðasti leikhlutinn hófst. Úrslitin ráðin en Þórsarar klóruðu lítillega í bakkann á síðustu mínútunum.
Adam Eiður Ásgeirsson var eini Þórsarinn með þokkalega framlagseinkunn í kvöld. Hann skoraði ellefu stig og var frákastahæstur Þórsara með sex fráköst.
Jesse Pellot-Rosa lék ekki með Þórsurum í kvöld en hann meiddist í síðasta leik.
Tölfræði Þórs: Halldór Garðar Hermannsson 13, Adam Eiður Ásgeirsson 11/6 fráköst, Magnús Breki Þórðason 9, Snorri Hrafnkelsson 6, Emil Karel Einarsson 6, Þorsteinn Már Ragnarsson 5/4 fráköst, Ólafur Helgi Jónsson 5/4 fráköst, Styrmir Snær Þrastarson 5, Benjamín Þorri Benjamínsson 2, Óli Ragnar Alexandersson 2.