Þór Þorlákshöfn mætir Haukum í 8-liða úrslitum Powerade bikar karla í körfuknattleik. Kvennamegin leikur Hamar gegn Stjörnunni.
Dregið var í 8-liða úrslit í Poweradebikarkeppni karla og kvenna í dag. Karfan.is greinir frá því að gríðarlegur fögnuður hafi brotist út þegar Þór Þorlákshöfn fékk heimaleik. Þórsarar hafa fyrir löngu hætt að bera harm sinn í hljóði og jafnvel hótað skemmdum á bikarskálinni sem notuð hefur verið við drættina undanfarin ár. Þykir Þórsurum heimaleikirnir í bikarkeppninni helst til of fáir hin seinni ár.
Til þess að gæta ítrasta hlutleysis við bikardráttinn voru kallaðir til Garðar Svansson stjórnarmaður hjá ÍSÍ og Úlfur Hróbjartsson formaður Siglingasambands Íslands. Stóðu þeir sig báðir með miklum sóma og ákveðið var einnig að skálin fræga fengi að lifa áfram.
Sjálfir leikirnir munu fara fram dagana 9.-11. janúar næstkomandi.
8-liða úrslit kvenna
Valur – Snæfell
Keflavík – Skallagrímur
Grindavík – Haukar
Stjarnan – Hamar
8-liða úrslit karla
Njarðvík b – Keflavík
Þór Þorlákshöfn – Haukar
Skallagrímur – Grindavík
Haukar b/KR – Njarðvík