Þórsarar flottir gegn ÍR

Þór Þorlákshöfn vann góðan sigur, 100-76, þegar liðið fékk ÍR í heimsókn í Lengjubikar karla í körfubolta í kvöld.

Leikurinn var jafn framan af en ÍR náði mest átta stiga forskoti í 1. leikhluta, 10-18. Þórsarar minnkuðu strax muninn og komust yfir í upphafi 2. leikhluta, 30-29. Eftir það litu Ölfusingar ekki um öxl og byggðu hægt og bítandi upp gott forskot. Staðan í hálfleik var 54-40.

Munurinn var ekki mikill á liðunum í síðari hálfleik en Þórsarar voru alltaf skrefinu á undan og hleyptu ÍR-ingum ekki inn í leikinn. Staðan var 77-58 að loknum 3. leikhluta og Þór jók muninn ennþá í síðasta fjórðungnum.

Þórsarar áttu heilt yfir mjög fínan leik og voru sex leikmenn með 16 eða meira í tölfræðiframlag. Bestur var Ben Smith sem skoraði mest allra Þórsara 26 stig. Darrell Flake skoraði 20, Emil Karel Einarsson og Darri Hilmarsson 14, Robert Diggs 12 auk 11 frákasta, Grétar Ingi Erlendsson skoraði 6 stig, Baldur Þór Ragnarsson 4 og þeir Þorsteinn Már Ragnarsson og Guðmundur Jónsson skoruðu báðir 2 stig.

Fyrri greinSnæfell hafði betur í hörkuleik
Næsta grein„Ef hann bætir á sig kjöti er hann klár í slaginn“