Þór Þorlákshöfn sigruðu nágrannaslaginn gegn FSu þegar liðin mættust í Icelandic Glacial höllinni í Domino´s deild karla í körfubolta í Þorlákshöfn í kvöld. Lokatölur voru 94-58.
Jafnræði var með liðunum snemma í leiknum og var munurinn aðeins þrjú stig eftir fyrsta leikhlutann, 17-14. En í öðrum leikhluta náðu heimamenn tökum á leiknum og í leikhléi leiddu þeir með 11 stigum, 43-32.
Þriðji leikhluti var algjörlega eign Þórsara. Þeir juku forskotið um heil 17 stig, skoruðu 27 stig gegn aðeins tíu stigum FSu og fóru langt með að tryggja sér sigurinn. Þeir héldu uppteknum hætti í síðasta leikhlutanum og sigruðu leikinn að lokum með 36 stigum, 94-58.
Vance Michael Hall skoraði 33 stig fyrir Þór og tók níu fráköst, Grétar Ingi Erlendsson skoraði 15 stig og Þorsteinn Már Ragnarsson og Ragnar Ágúst Nathanaelsson skoruðu 12 stig hvor, að auki tók Ragnar 16 fráköst.
Christopher Woods skoraði mest fyrir FSu, 25 stig, og tók 14 fráköst, Hlynur Hreinsson skoraði 11 stig og Bjarni Geir Gunnarsson tíu.
Þór Þorlákshöfn er í 4. sæti eftir leikinn með 18 stig, en FSu er í 11. sæti með sex stig.