Þór Þ. tapaði öðrum leik sínum gegn KR í úrslitakeppni Domino's-deildar karla í körfubolta þegar liðin mættust í Vesturbænum í kvöld. Lokatölur 93-83 og Þórsarar komnir í sumarfrí.
KR-ingar tóku leikinn í sínar hendur í fyrri hálfleik og leiddu í leikhléinu, 46-36. Þórsarar minnkuðu forskotið niður í fimm stig í 3. leikhluta en nær komust þeir ekki.
KR-ingar bættu í og voru komnir með rúmlega 20 stiga forskot í upphafi 4. leikhluta. Í stöðunni 82-61 tóku Þórsarar góða rispu og minnkuðu muninn niður í sex stig, 89-83. Þá voru hins vegar aðeins 30 sekúndur eftir af leiknum og sá tími dugði Þór ekki til að brúa bilið.
Benjamin Smith var stigahæstur hjá Þór með 23 stig en David Jackson skoraði 20 og tók 11 fráköst. Emil Karel Einarsson skoraði 11 stig og þeir Darrell Flake og Grétar Ingi Erlendsson skoruðu báðir 10 stig.