Þórsarar eru úr leik í úrslitakeppni Domino's-deildar karla í körfubolta eftir tap á heimavelli gegn Grindavík í kvöld, 75-89. Grindavík vann einvígið 3-1 og mætir Njarðvík í undanúrslitum.
Leikurinn fer rólega af stað, Þórsarar spiluðu fína vörn og leikurinn var í járnum nær allan fyrri hálfleik. Skotnýting Þórsara var hins vegar vandræðalega léleg í fyrri hálfleik en þeir klikkuðu ítrekað á opnum skotum innan sem utan teigs og jafnvel auðveld sniðskot komust einhvernveginn ekki til skila. Staðan var 33-39 í hálfleik eftir að Grindavík skoraði sex síðustu stigin í fyrri hálfleik.
Grindvíkingar höfðu undirtökin allan þriðja leikhluta og náðu mest þrettán stiga forskoti en þegar leið á leikinn misstu Þórsarar móðinn og náðu aldrei að svara fyrir sig. Þannig unnu Íslandsmeistararnir á endanum sanngjarnan sigur og sendu Þórsara í sumarfrí.
Mike Cook Jr. var stigahæstur hjá Þór með 25 stig, Nemanja Sovic skoraði 15 og tók 15 fráköst, Ragnar Nathanaelsson skoraði 12 stig og tók 16 fráköst, Baldur Þór Ragnarsson skoraði 10 stig, Tómas H. Tómasson 9 og þeir Sveinn Hafsteinn Gunnarsson og Vilhjálmur Atli Björnsson skoruðu báðir 2 stig.