Grindavík vann sannfærandi sigur á Þór í öðrum leik liðanna í einvíginu um Íslandsmeistaratitilinn í körfubolta. Grindavík vann 64-79 í Þorlákshöfn og leiðir 2-0 í einvíginu.
Fyrsti leikhluti var jafn en Grindvíkingar létu til skarar skríða í 2. leikhluta og skoruðu grimmt á meðan ekkert gekk í sókninni hjá Þór. Góð vörn Grindavíkur skilaði þeim tíu stiga forskoti í hálfleik, 30-40.
Þórsarar mættu til leiks í nýjum stuttbuxum í seinni hálfleik, skoruðu tólf fyrstu stigin og komust yfir, 42-40. Grindavík svaraði með sjö stigum í röð og eftir það héldu gestirnir forystunni og juku hana smátt og smátt til leiksloka.
Blagoj Janev og Darrin Govens voru stigahæstir Þórsara með 15 stig en burðarásinn Govens var skugginn af sjálfum sér í þessum leik. Besti maður Þórsara var Darri Hilmarsson sem skoraði 11 stig, Baldur Ragnarsson skoraði 9, Guðmundur Jónsson 7, Joseph Henley 5 og Grétar Erlendsson 2.
Þriðji leikur liðanna er í Grindavík á sunnudagskvöld og sigri Grindvíkingar þá hafa þeir tryggt sér Íslandsmeistaratitilinn.