Þór Þorlákshöfn tapaði 73-71 gegn Grindavík á útivelli þegar keppni hófst í Domino's-deild karla í körfubolta í kvöld.
Grindvíkingar byrjuðu betur í leiknum en Þórsarar eignuðu sér svo 2. leikhlutann og leiddu í hálfleik, 37-40. Þriðji leikhluti var í nokkuð öruggum höndum Þórsara en í síðasta fjórðungnum gekk allt á afturfótunum.
Þegar sex mínútur voru eftir af leiknum höfðu Þórsarar öruggt forskot, 56-71. Þá hrukku þeir grænu gjörsamlega úr sambandi og skoruðu ekki stig það sem eftir lifði leiks. Grindavík lauk leiknum á 17-0 áhlaupi og skoraði sigurkörfuna þegar fjórar sekúndur voru eftir.
Tölfræði Þórs: Tobin Carberry 23 stig/7 fráköst, Maciej Baginski 14 stig/6 fráköst, Ragnar Örn Bragason 13 stig, Emil Karel Einarsson 8 stig, Ólafur Helgi Jónsson 5 stig, Halldór Hermannsson 4 stig, Davíð Arnar Ágústsson 2 stig/4 fráköst, Magnús Breki Þórðason 2 stig.