Þór Þorlákshöfn vann góðan útisigur á Grindavík í þriðja leik liðanna í einvíginu um Íslandsmeistaratitilinn í körfubolta í kvöld. Lokatölur voru 91-98.
Leikurinn var jafn í fyrri hálfleik en Þórsarar voru skrefinu á undan og leiddu í hálfleik, 44-49.
Þeir grænu létu svo sverfa til stáls í 3. leikhluta og náðu þá ellefu stiga forskoti, 65-76. Þór hélt forskotinu í síðasta leikhlutanum en Grindvíkingar hættu aldrei og sendu Þórsara hvað eftir annað á vítalínuna á síðustu mínútunum.
Darrin Govens var í sérflokki í kvöld með 30 stig, 8 fráköst og 11 stoðsendingar. Joseph Henley átti fínan leik með 19 stig og 11 fráköst, Blagoj Janev skoraði 19, Guðmundur Jónsson 11 og Darri Hilmarsson 9 en Darri lék virkilega vel í vörninni. Grétar Ingi Erlendsson skoraði 6 stig og Baldur Þór Ragnarsson 4.
Staðan í einvíginu er 2-1 fyrir Grindavík og næsti leikur liðanna verður í Þorlákshöfn á miðvikudagskvöld.