Þór Þorlákshöfn tók 2-1 forystu í einvíginu við KR í undanúrslitum Iceland Express-deildar karla í körfubolta í kvöld. Þór vann 86-100 á útivelli og þurfa nú einn sigur til viðbótar til að slá Íslandsmeistarana út.
Þórsarar tóku frumkvæðið snemma og komust í 4-13. Óskabyrjun hjá gestunum sem léku magnaða vörn en heimamenn fundu þó nokkrar glufur og staðan var 15-23 fyrir Þór að loknum fyrsta leikhluta.
Þór opnaði annan leikhluta 4-0 og komst í 21-35 þegar KR-ingar tóku leikhlé. Þeir klóruðu lítillega í bakkann eftir það og staðan var 40-50 í hálfleik.
KR minnkaði muninn í sex stig í upphafi 3. leikhluta en Darrin Govens tók þá af skarið, afgreiddi tvo þrista og breytti stöðunni í 46-59. Leikhlutinn var þó engu að síður nokkuð jafn á stigum, en Þór vann leikhlutann 26-30 og leiddi því 66-80 fyrir fjórða og síðasta leikhluta.
KR minnkaði muninn í 10 stig, 72-82 en þá tók Guðmundur Jónsson til sinna ráða, þristur og svo karfa í teignum, 5 stig í röð frá Guðmundi og alls 7-0 demba frá Þór og staðan 72-89. Þarna kláraðist leikurinn og rúmar fimm mínútur eftir af leiktímanum. KR átti sér ekki viðreisnar von og þurfa nú að halda í Þorlákshöfn og vinna til að knýja fram oddaleik í DHL-Höllinni.
Í kvöld var það svo viðeigandi að Darri Hilmarsson skyldi gera síðustu stig leiksins úr þriggja stiga körfu, 86-100 og gestirnir með Græna drekann í broddi fylkingar fögnuðu innilega í leikslok.
Darrin Govens átti sem fyrr segir frábæran leik fyrir Þórsara, skoraði 29 stig, tók 13 fráköst og sendi 9 stoðsendingar, Blagoj Janev skoraði 18 stig, Guðmundur Jónsson 16, Darri Hilmarsson 14 og Joseph Henley 12. Baldur Þór Ragnarsson skoraði 6 stig, Grétar Ingi Erlendsson 4 og Þorsteinn Már Ragnarsson 1.
Fjórði leikur liðanna fer svo fram í Þorlákshöfn næstkomandi miðvikudag.