Þór Þorlákshöfn sigraði í meistarakeppni karla í körfubolta í dag þegar liðið sigraði Íslands- og bikarmeistara KR 86-90 í TM höllinni í Keflavík.
KR leiddi eftir 1. leikhluta, 26-21, en Þórsarar sneru leiknum sér í vil með frábærum 2. leikhluta og staðan var 40-46 í hálfleik.
Leikurinn var í járnum allan síðari hálfleikinn en Þórsarar höfðu frumkvæðið lengst af. KR jafnaði 75-75 þegar fjórar mínútur voru eftir en Þórsarar kláruðu með flottum lokakafla og tryggðu sér sigurinn.
Jesse Pellot-Rosa var frábær í liði Þórs með 37 stig og 11 fráköst. Emil Karel Einarsson skoraði 14 stig, Adam Eiður Ásgeirsson og Ólafur Helgi Jónsson 9, Davíð Arnar Ágústsson 8, Snorri Hrafnkelsson 6, Þorsteinn Már Ragnarsson 5 og þeir Óli Ragnar Alexandersson og Styrmir Snær Þrastarson skoruðu báðir eitt stig, en Óli sendi þar að auki tíu stoðsendingar.
Þetta er annað árið í röð sem Þórsarar vinna þennan titil en þeir lögðu KR sömuleiðis í leiknum í fyrra.