Þórsarar misstu af úrslitaleiknum

Þórsarar töpuðu með minnsta mun fyrir Tindastól í undanúrslitum Lengjubikars karla í körfubolta í kvöld. Lokatölur í Stykkishólmi voru 82-81 eftir dramatískar lokamínútur.

Þórsarar byrjuðu betur í leiknum og komust í 6-14 en Tindastóll jafnaði 16-16. Þórsarar skoruðu hins vegar síðustu sex stigin í leikhlutanum og leiddu 16-22 að honum loknum.

Í upphafi 2. leikhluta náði Þór tíu stiga forskoti, 18-28, en Sauðkrækingar spýttu þá í lófana og komust yfir, 35-30. Þórsarar lögðu niður varnarleikinn á þessum kafla og Stólarnir stálu grimmt af þeim grænu í sókninni. Benedikt Guðmundsson tók leikhlé og las yfir sínum mönnum sem tóku sig á og staðan var 39-38 í hálfleik.

Tindastóll var skrefinu á undan allan 3. leikhlutann á meðan Þórsarar voru að hitta illa, sérstaklega fyrir utan. Staðan var 66-63 þegar síðasti fjórðungurinn hófst.

Baráttan var rosaleg í síðasta leikhlutanum. Þór komst fyrir 72-73 en þá settu Stólarnir niður tvo þrista í röð og breyttu stöðunni í 78-73. Tindastóll leiddi 82-81 þegar tvær mínútur voru eftir og staðan breyttist ekki eftir það. Liðin klikkuðu illilega í sókninni hvað eftir annað en Þórsarar voru með boltann þegar örfáar sekúndur voru eftir en klikkuðu illa á innkasti og Tindastóll tók sigurinn og fer í úrslitaleikinn á morgun gegn Snæfelli eða Grindavík.

Hjá Þór var Darrell Flake með 22 stig og 12 fráköst og þeir Ben Smith og Guðmundur Jónsson skoruðu báðir 16 stig auk þess sem Smith var með 11 stoðsendingar.

Fyrri greinGrótta hafði betur í hörkuleik
Næsta greinNýr skemmtistaður rís á rústum 800