Þór Þorlákshöfn vann góðan sigur á Njarðvík á útivelli í Domino’s-deild karla í körfubolta í kvöld, 75-90.
Leikurinn var jafn í fyrri hálfleik og staðan í leikhléi var 47-40, Njarðvík í vil. Þórsarar settu hins vegar í fjórhjóladrifið í seinni hálfleik og voru fljótir að komast yfir, 49-51.
Undir lok 3. leikhluta gerðu Þórsarar 2-11 áhlaup og leiddu 61-69 þegar síðasti leikhlutinn hófst. Hann var jafn allt þar til fjórar mínútur voru eftir en þær mínútur áttu Þórsarar með húð og hári. Þar gerðu Þórsarar 2-16 áhlaup og breyttu stöðunni úr 73-74 í 75-90, sem urðu lokatölur leiksins.
Þór er nú í 5. sæti deildarinnar með 10 stig.
Tölfræði Þórs: Emil Karel Einarsson 19 stig/10 fráköst (25 í framlag), Ragnar Örn Bragason 18 stig/4 fráköst, Vance Hall 15 stig/10 fráköst, Ragnar Nathanaelsson 13 stig/9 fráköst, Baldur Þór Ragnarsson 13 stig, Halldór Garðar Hermannsson 5 stig, Davíð Arnar Ágústsson 5 stig, Magnús Breki Þórðason 2 stig.