Þórsarar töpuðu 88-97 þegar Grindavík kom í heimsókn í kvöld í Domino's-deild karla í körfubolta. Eftir jafnan leik skoruðu Þórsarar ekki stig á tæplega þremur síðustu mínútunum.
Leikurinn var jafn í 1. leikhluta en Grindavík skoraði níu síðustu stigin í leikhlutanum og leiddi 17-25 að honum loknum. Í 2. leikhluta náði Þór að minnka muninn niður í eitt stig, 43-44, en staðan var 46-50 í hálfleik.
Þórsarar mættu ákveðnir í síðari hálfleikinn og komust fljótlega yfir, 57-54. Eftir það var leikurinn í járnum og staðan jöfn, 69-69, þegar síðasti fjórðungurinn hófst.
Fjórði leikhlutinn var jafn en Þórsarar höfðu fimm stiga forskot þegar tæpar þrjár mínútur voru eftir, 88-83. Þá lokuðu Grindvíkingar körfunni sinni með tunnuloki, gestirnir skoruðu fjórtán síðustu stigin í leiknum og unnu með níu stiga mun. Ótrúlegur viðsnúningur á skömmum tíma.
Mike Cook Jr. var stigahæstur Þórsara með 23 stig, Nemanja Sovic skoraði 18 og tók 10 fráköst, Ragnar Nathanaelsson skoraði 17 og tók 12 fráköst, Tómas Heiðar Tómasson skoraði 11 stig, Emil Karel Einarsson 9, Halldór Garðar Hermannsson 6 og Baldur Þór Ragnarsson 4.
Þór mætir ÍR í lokaumferð deildarkeppninnar og það verður ekki ljóst fyrr en eftir þann leik hvort Þórsarar mæta Grindavík eða Njarðvík í átta liða úrslitum úrslitakeppninnar. Hins vegar er það morgunljóst að Þór fær ekki heimaleikjaréttinn í úrslitakeppninni þar sem þeir eru í 6. sæti í augnablikinu með 22 stig.