Þór Þorlákshöfn tapaði þegar liðið heimsótti Tindastól á Sauðárkrók í Iceland Express-deild karla í körfubolta í gærkvöldi. Lokatölur voru 97-80.
Eftir jafna byrjun þá tóku Tindastólsmenn fína forystu í 1. leikhluta, 30-22, en í stöðunni 35-25 stigu Þórsarar á bensíngjöfina og náðu að jafna, 43-43. Staðan í hálfleik var 48-47.
Þriðji leikhluti var stál í stál í meira stál og jafnt á mörgum tölum en staðan að honum loknum 70-67. Stólarnir byrjuðu betur í síðasta fjórðungnum og náðu tólf stiga forskoti, 88-76, þegar fimm mínútur voru eftir.
Þá tóku Þórsarar leikhlé og á leið útaf vellinum ákvað Matthew Hairston að stoppa í Tindastólshópnum og vera með læti. Hvað hann gerði nákvæmlega er ekki alveg ljóst en a.m.k. lá einn leikmaður Stólanna í gólfinu eftir framgöngu Hairston. Dómarar leiksins, sem voru reyndar hinu megin í húsinu, virtust hins vegar vera alveg vissir um hvað hefði gerst og vísuðu Hairston umsvifalaust úr húsi. Í kjölfarið var síðan einum leikmanna Tindastóls einnig vísað úr húsi. Þessi læti fóru ekki vel í Þórsarana og leikur þeirra fjaraði út.
Darrin Govens var stigahæstur Þórsara með 21 stig, Blagoj Janev átti ágætan leik og skoraði 20 stig, Matthew Hairston 16 og Darri Hilmarsson 10.