Þórsarar eru enn taplausir í 1. deild karla í körfubolta eftir 77-82 sigur á Breiðabliki í Smáranum í kvöld.
Leikurinn var jafn en kaflaskiptur hjá liðunum. Breiðablik leiddi framan af en á síðustu fimm mínútum fyrri hálfleik skoruðu Þórsarar 15 stig gegn 4 og leiddu í hálfleik, 35-40.
Þór byrjaði betur í seinni hálfleik og komst í 37-49 áður en Blikar tóku aftur við sér. Þeir náðu að minnka muninn niður í eitt stig, 75-76, þegar rúm mínúta var eftir af leiknum. Í framhaldinu brutu Blikar stöðugt á Þórsurum en Eric Palm var öruggur og setti niður sex vítaskot á lokamínútunni.
Palm var stigahæstur Þórsara með 23 stig. Philip Perre skoraði 17 stig og tók 12 fráköst og Vladimir Bulut skoraði 15 stig.