Þorsteinn Helgi sigraði í sínum flokki

Önnur umferð Íslandsmótsins í mótokrossi fór fram á Ólafsfirði 2. júní sl. Fimm keppendur frá Umf. Selfoss tóku þátt í mótinu og stóðu sig vel.

Ekki var hægt að biðja um betra veður og helst var hægt að kvarta yfir hitanum. Brautin fyrir norðan var sandur og leit mjög vel út, en var erfið fyrir suma keppendur vegna þess hve sandurinn var þungur. Rúmlega 70 keppendur voru skráðir til leiks.

Í kvennaflokki gekk Einey Ösp Gunnarsdóttir mjög vel og endaði hún í 4. sæti eftir daginn.

Þorsteinn Helgi Sigurðsson var skráður í 85 cc flokkinn og gekk allt upp hjá honum enda vanur því að hjóla í sandi og lauk hann keppni í fyrsta sæti.

Í unglingaflokki voru þeir Andri Orri Hreiðarson og Ragnar Páll Ragnarsson skráðir. Andra gekk ágætlega og endaði í 9. sæti eftir daginn. Ragnar Páll átti góðan dag og endaði í 4. sæti.

Jóhann Smári Gunnarsson var skráður í B-flokk og kláraði í 3. sæti eftir ágætan dag.

Næsta keppni verður á Akranesi þann 7. júlí.

Fyrri greinNýtt snjallsímaforrit eykur öryggi ferðafólks
Næsta greinÁtta krakkar úr sama bekk í úrvalshópi í handbolta