44. ársþing Ungmennasambands V-Skaftfellssýslu fór fram á Hótel Laka á Kirkjubæjarklaustri í lok mars. Ragnheiður Högnadóttir gaf ekki kost á sér til áframhaldandi formennsku og var Þorsteinn M. Kristinsson kjörinn nýr formaður.
Ragnheiður hafði setið í stjórn USVS í um 20 ára skeið, þar af sem formaður í átta ár. „Það er skemmtilegur tími að baki og ég hef kynnst góðu fólki allt um kringum landið. Þrátt fyrir að sé hætt í stjórn mun ég eftir sem áður halda áfram að vinna fyrir sambandið,“ sagði Ragnheiður Högnadóttir fráfarandi formaður.
Íþróttamaður ársins að þessu sinni var kjörinn Hlynur Guðmundsson, Hestamannafélaginu Sindra. Efnilegasti íþróttamaðurinn er Guðný Árnadóttir, Ungmennafélaginu Kötlu.
Ný stjórn var kosin á þinginu og auk Þorsteins skipa stjórnina þau Erla Þórey Ólafsdóttir, Pálmi Kristjánsson, Ástþór Jón Tryggvason og Bergur Sigfússon. Í varastjórn eru Ármann Gíslason, Kristín Ásgeirsdóttir og Eyrún Elvarsdóttir.