Þorsteinn Magnússon, Flugklúbbi Selfoss, vann Pétursbikarinn í árlegri lendingarkeppni Flugklúbbsins á Selfossflugvelli í gærkvöldi.
Níu flugmenn á sjö flugvélum tóku þátt í keppninni sem felst í því að lenda flugvélum sem næst réttum lendingarstað. Hver flugmaður tekur fjórar lendingar og þarf að beita fjórum aðferðum við lendingarnar og m.a. fljúga yfir hindrun. Gefin eru refsistig skv. alþjóðlegum reglum eftir því hversu langt vélunum er lent frá lendingarstaðnum og sá sigrar sem fær fæst refsistig.
Þetta er í fimmta sinn sem Þorsteinn, sem flaug TF-169, vinnur Pétursbikarinn en hann fékk 66 refsistig sem telst mjög góður árangur. Þórir Tryggvason, á TF-170, varð annar með 110 refsistig og Óli Öder Magnússon, á TF-151, þriðji með 452 refsistig.
Keppnin er haldin til minningar um Pétur Sigvaldason sem var gestur á stofnfundi Flugklúbbs Selfoss þann 16. maí 1974, en hann var þá ritari Vélflugfélags Íslands, VFFÍ. Á fundinum gaf Pétur 5.000 krónur til flugvallargerðar á Selfossi og var það fyrsta fjárframlagið til Selfossflugvallar. Pétur fórst í flugslysi tæpum þremur vikum síðar, í Svínadal í Dölum, 2. júní 1974.