Forráðamenn, þjálfarar og fyrirliðar liðanna í Domino's-deild karla í körfubolta spá Þórsurum í Þorlákshöfn fjórða sætinu í deildinni í vetur.
Árlegur kynningarfundur KKÍ fyrir komandi vertíð í körfuboltanum var haldinn í dag og þar var spáin afhjúpuð.
Tímabilið hjá Þórsurum hefst á þriðjudaginn í næstu viku þegar liðið tekur á móti Njarðvík í Þorlákshöfn.
Í viðtali á karfan.is í dag segir Benedikt Guðmundsson, þjálfari Þórs, að undirbúningstímabilið hafi gengið ágætlega en liðið eigi enn svolítið í land.
„Það verður fljótt að koma þar sem það eru litlar breytingar á hópnum. Menn hafa nýtt sumarið misjafnlega og þeir sem nýttu það vel munu njóta góðs af því í vetur. Þorsteinn Ragnarsson og Erlendur Stefánsson lentu í erfiðum meiðslum og óvíst hvenær þeir koma til baka og þurfa örugglega sinn tíma að komast á gott ról,“ segir Benedikt.
Leikmannahópur Þórs er svipaður og í fyrra utan hvað skipt hefur verið um erlenda leikmenn. Darrel Flake, sem er íslenskum körfuknattleiksunnendum af góðu kunnur, gekk í raðir Þórsara í sumar og sömuleiðis framherjinn Robert Diggs.
Spá fyrir Domino´s deild karla gerð af forráðamönnum, þjálfurum og fyrirliðum í deildinni:
1. KR
2. Stjarnan
3. Grindavík
4. Þór Þorlákshöfn
5. Snæfell
6. Keflavík
7. ÍR
8. Njarðvík
9. Tindastóll
10. Fjölnir
11. KFÍ
12. Skallagrímur