Selfyssingar fóru langt með að tryggja sæti sitt í Olís-deild karla í handbolta á næstu leiktíð með mögnuðum sigri á Stjörnunni á útivelli í kvöld, 24-25.
„Sóknarleikurinn var svo útsjónasamur og lausnamiðaður, það skilaði okkur sigri. Það var mikil þrá og vilji í minum mönnum, líka þegar við vorum fjórum mörkum undir. Ég sagði við strákana að við myndum vinna leikinn ef við héldum áfram allar 60 mínúturnar og ekki gefast upp,” sagði Stefán Árnason, þjálfari Selfoss, í samtali við Morgunblaðið eftir leik.
Leikurinn var jafn á nánast öllum tölum upp í 8-8 en þá tóku Stjörnumenn leikhlé. Í kjölfarið komust þeir í 12-9 en Stjarnan leiddi 12-10 í hálfleik.
Stjarnan var skrefi á undan framan af síðari hálfleik og munurinn var fjögur mörk, 21-17, þegar fimmtán mínútur voru eftir. Þá skoruðu Selfyssingar fjögur mörk í röð og jöfnuðu 21-21 þegar átta mínútur voru eftir. Selfyssingar náðu forystunni í kjölfarið og Einar Sverrisson skoraði sigurmarkið þegar mínúta var eftir.
Stjarnan missti boltann í næstu sókn og Selfyssingar náðu að hanga á sigrinum þó tæpt hafi það verið, því heimamenn unnu boltann aftur á lokasekúndunum og skoruðu mark sem ekki var dæmt gilt um leið og lokaflautið gall.
Hergeir Grímsson var markahæstur Selfyssinga með 7 mörk, Teitur Örn Einarsson skoraði 6/2, Einar Sverrisson, Elvar Örn Jónsson og Alexander Egan 3 og þeir Guðni Ingvarsson, Sverrir Pálsson og Guðjón Ágústsson.
Selfoss hefur nú 22 stig í 6. sæti deildarinnar, þegar tvær umferðir eru eftir. Fram og Akureyri eru í botnsætunum með 18 og 17 stig, en eiga þrjá leiki eftir, þar af einn leik innbyrðis.