Þrautaganga Selfoss heldur áfram

Selfoss tapaði 2-0 þegar liðið heimsótti ÍA á Akranes í kvöld í Inkasso-deild karla í knattspyrnu.

Skagamenn voru sterkari í leiknum og skoruðu tvívegis í fyrri hálfleik, eftir aukaspyrnu á 38. mínútu og hornspyrnu á 45. mínútu.

Selfyssingar áttu nokkrar snarpar sóknir en gekk illa að athafna sig á síðasta þriðjungi vallarins og færin voru nánast engin.

Selfoss situr í 10. sæti Inkasso-deildarinnar með 8 stig en Skagamenn fóru í toppsætið með sigrinum í kvöld og hafa 23 stig.

Baráttan harðnar við botn deildarinnar því ÍR náði í stig í kvöld og er með 7 stig í 11. sæti og Magni er í botnsætinu með 6 stig og á leik til góða. Síðustu vikur hafa verið þrautaganga fyrir Selfyssinga sem hafa ekki unnið leik í síðustu fimm umferðum.

Fyrri greinLeitað að vitnum
Næsta greinÁtján vilja bæjarstjórastólinn í Ölfusi