Um síðustu helgi tóku krakkar úr Umf. Selfoss og Umf. Þór Þorlákshöfn þátt í Gautaborgarleikum í frjálsum íþróttum.
Keppendur liðanna voru á aldrinum 12-18 ára en liðinu fylgdu þjálfararnir Þuríður Ingvarsdóttir, sem var aðalskipuleggjandi ferðarinnar, Ólafur Guðmundsson og Rúnar Hjálmarsson. Fjórir foreldrar tóku að sér hópstjórn og auk þeirra fylgdu nokkrir fleiri foreldrar með til Gautaborgar. Alls taldi hópurinn 50 manns.
Mikil eftirvænting var í hópnum þegar hann lagði af stað aðfararnótt 25.júní sl. enda hafði undirbúningur staðið lengi, bæði hvað varðar æfingar og fjáröflun. Krakkarnir úr félögunum tveimur mynda góðan hóp og hafa hist bæði á mótum, æfingum og öðrum vettvangi undanfarið ár og þannig kynnst býsna vel. Það skilaði sér í skemmtilegum anda og samheldni þegar á hólminn var komið helgina 27.-29. júní í Gautaborg.
Of langt mál yrði að telja upp árangur allra keppenda Selfoss/Þórs á mótinu en flestir bættu sig í sínum greinum og öðluðust auðvitað mjög dýrmæta reynslu með þáttöku í svo risastóru móti. Það var stærsti sigurinn fyrir marga – að keppa við tugi jafnaldra frá mörgum þjóðlöndum á leikvangi sem tekur mörg þúsund áhorfendur. Hér skal þó getið þeirra keppenda okkar sem náðu bestum árangri og slógu met, en keppendur í hverjum aldursflokki voru 40-100 talsins.
Styrmir Dan Steinunnarson úr Þór hlaut gullverðlaun og sló 36 ára gamalt í Íslandsmet í hástökki 15 ára. Hann stökk 1,94m sem er að sjálfsögðu einnig HSK met. Hann setti líka HSK met í langstökki, stökk 6,42 en m.t.t. vinds var það löglegt 6,21m. Styrmir varð svo í 9.sæti í spjótkasti með 41,85m og kringlukasti með kast upp á 37,72 m.
Kolbeinn Loftsson Umf. Selfoss sigraði hástökk pilta 12 ára, stökk 1,57m. Hann varð í 5. sæti í kúluvarpi með 9,24m og 7.sæti í spjótkasti, kastaði 32,50m.
Hildur Helga Einarsdóttir Umf. Selfoss hlaut bronsverðlaun í spjótkasti 12 ára, kastaði 30,75m og sló HSK met í 60m grindahlaupi, hljóp á 12,42 sek.
Fannar Yngvi Rafnarsson úr Þór varð í 7.sæti í langstökki 16 ára, stökk 6,17m.
Guðjón Baldur Ómarsson Umf. Selfoss varð í 6.sæti í spjótkasti 14 ára, kastaði 40,47m
Viktor Karl Halldórson úr Þór komst í 16 manna úrslit í 60m hlaupi 12 ára og hljóp á 8,82sek. Hann lenti í 4.sæti í spjótkasti, kastaði 37,89m sem er HSK met.
Thelma Björk Einarsdóttir Umf. Selfoss lenti í 9.sæti í kúluvarpi í flokki 18 ára kastaði 10,49m. Hún varð einnig níunda í sleggjukasti m eð 35,43m og í 10. sæti í kringlukasti, kastaði 31,81m.
Jónína Guðný Jóhannsdóttir 15 ára frá Selfoss setti nýtt HSK met í sleggjukasti (3kg), kastaði 30,27m og hún setti HSK met í spjótkasti, kastaði 31,21m og var í 8.sæti.
Pétur Már Sigurðsson úr Umf. Selfoss varð fjórði í hástökki 14 ára, stökk 1,76m og áttundi í kúluvarpi með 10,44m.
Dagur Fannar Einarsson 12 ára úr Umf. Vöku var með hópnum á leikunum og hann sló HSK met í 200m, hljóp á 29,33 sek.
Sannarlega flottur árangur hjá samhentu liði Umf. Selfoss og Umf. Þórs. Hópurinn er væntanlegur heim á morgun, miðvikudag.