Jordan Follows skoraði þrennu fyrir Hamar sem vann öruggan sigur á GG í 4. deild karla í knattspyrnu í gærkvöldi.
Liðin mættust í Grindavík og þar komust heimamenn yfir á 19. mínútu með marki úr vítaspyrnu. Follows jafnaði fimm mínútum síðar fyrir Hamar og á 31. mínútu kom Magnús Benediktsson Hvergerðingum í 1-2. Follows bætti við öðru marki fyrir hálfleik og staðan í leikhléi var 1-3.
Tómas Hassing jók forskot Hvergerðinga í upphafi síðari hálfleiks en síðan hægðist á markaregninu. Follows kláraði þrennuna á 86. mínútu og í uppbótartímanum minnkuðu GG menn muninn í 2-5, sem urðu lokatölur leiksins.
Staðan í A-riðlinum er mjög spennandi en Hamar er í 4. sæti með 19 stig. Toppsætin tvö, sem gefa þátttökurétt í úrslitakeppni deildarinnar, eru hins vegar í seilingarfjarlægð.