Hinn þrettán ára gamli Fannar Ingi Steingrímsson sigraði í meistaraflokki á meistaramóti Golfklúbbs Hveragerðis sem lauk í dag á Gufudalsvelli.
Fannar Ingi lék hringina fjóra á 311 höggum (82-72-78-79) og var tveimur höggum á undan Þorsteini Inga Ómarssyni. Þetta gerir Fannar Inga að öllum líkindum að yngsta klúbbmeistara landsins.
Í meistaraflokki kvenna varð Ingibjörg Mjöll Pétursdóttir hlutskörpust á 376 höggum en hún varð einu höggi á undan Hörpu Rós Björgvinsdóttur sem lék á 377 höggum.
Fannar Ingi er í þriðja sæti á stigalista GSÍ 14 ára og yngri þegar þremur af sex umferðum 2012 er lokið. Næst keppir klúbbmeistarinn ungi á Íslandsmóti unglinga á Kiðjabergsvelli um næstu helgi.