Selfyssingar heimsóttu Víking í 1. deild karla í handbolta í kvöld. Lokatölur voru 27-23 og Selfyssingar þurfa nú að girða sig í brók ætli þeir sér í úrslitakeppnina.
„Það vantaði ekki að menn voru að berjast og reyna. En við erum að elta allan tímann, vorum klaufar, klikkuðum á góðum færum og grófum okkur þannig holu,” sagði Arnar Gunnarsson, þjálfari Selfoss, í samtali við sunnlenska.is eftir leik.
Víkingarnir voru með frumkvæðið í fyrri hálfleik og leiddu í leikhléinu, 13-11.
Þegar leið á leikinn mátti sjá þreytumerki á Selfossliðinu eftir þétta leikjatörn gegn ÍBV á síðustu dögum. Víkingar komust í 22-16 en Selfoss náði að minnka muninn í þrjú mörk. Nær komust Selfyssingar ekki og Víkingar bættu við í lokin.
Þrátt fyrir að þreyta væri í Selfossliðinu vantaði ekki baráttuna en eltingaleikurinn tók orkuna hratt úr liðinu.
Dómararnir voru heldur ekki að gera Selfyssingum lífið léttara því þeir slepptu ítrekað augljósum brotum sem fært hefðu Selfyssingum vítaköst auk þess sem Víkingar fóru lítið í skammarkrókinn þrátt fyrir að spila mjög fast í vörninni.
Einar Sverrisson var markahæstur Selfyssinga með 6 mörk, Hörður Másson skoraði 4, Matthías Örn Halldórsson og Einar Pétur Pétursson 3, Hörður Bjarnarson, Gústaf Lilliendahl og Gunnar Ingi Jónsson 2 og Sigurður Guðmundsson 1.
Sverrir Andrésson stóð í markinu lengst af, varði 9/1 skot og var með 29% markvörslu. Helgi Hlynsson, sem enn er að glíma við meiðsli kom inná síðasta korterið, varði 7 skot og var með 58% markvörslu.