Árborg er enn án stiga á botni A-riðils 4. deildar karla í knattspyrnu en liðið tapaði í kvöld gegn nágrönnum sínum í KFS frá Vestmannaeyjum.
Árborgarar fengu frábært færi í fyrstu sókn sinni en eftir það var fyrri hálfleikur ákaflega tíðindalaus. Árborg lá til baka og leyfði KFS að rúlla boltanum og hvorugt liðið fékk færi.
Það sama var uppi á teningnum í síðari hálfleik en á 58. mínútu komust gestirnir yfir með skallamarki eftir aukaspyrnu utan af velli. Tíu mínútum síðar bættu gestirnir öðru marki við þegar þeir léku snyrtilega innfyrir Árborgarvörnina.
Á lokamínútunum fengu Árborgarar ágæt færi sem nýttust ekki en heilt yfir var ekki mikið bit í sóknarleik liðsins.