Haraldur Júlíusson, Lísa Thomsen og Þorgeir Vigfússon voru sæmd gullmerki HSK á Héraðsþingi sambandsins sem sett var í Brautarholti á Skeiðum í morgun.
Auk þeirra var Ragnar Sigurðsson, fráfarandi varaformaður og félagsmaður í Umf. Þór, sæmdur silfurmerki sambandsins.
Gullmerkishafarnir hafa allir starfað í áratugi innan sambandsins og eru nefndarmenn í Sögu- og minjanefnd sambandsins og Þorgeir er að auki fyrrverandi ritari sambandsins.
Öll hafa þau verið í framlínunni hjá félögum sínum, Haraldur með Umf. Njáli, Lísa með Umf. Hvöt og Þorgeir með Umf. Skeiðamanna.
Í upphafi þings afhenti Guðríður Aadnegard, formaður HSK, Körfuknattleiksdeild Hamars foreldrastarfsbikarinn, Hestamannafélaginu Geysi unglingabikarinn og Ungmennafélag Selfoss fékk bikar sem stigahæsta félag í heildarstigakeppni ársins. Selfyssingar sigruðu með 200 stig.
Reikningar sambandsins voru lagðir fram en rúmlega 1,1 milljóna króna hagnaður var af rekstri sambandsins sem er góður viðsnúningur frá árinu 2010.