Þjálfarar U15 ára landsliðanna í körfubolta hafa nú valið sína lokahópa fyrir sumarið 2018. Hrunamenn eiga þrjá leikmenn í liðunum.
Alls eru 18 leikmenn valdir hjá stúlkum og drengjum sem skipa tvö 9 manna landslið og taka liðin þátt á Copenhagen-Invitational mótinu í Farum í Danmörku um miðjan júní.
Þrír leikmenn Hrunamanna eru í þessum hópi en þau Aron Ernir Ragnarsson, Eyþór Orri Árnason og Una Bóel Jónsdóttir fengu kallið að þesu sinni. Að auki var Ísak Júlíus Perdue, félagi strákanna í sameiginlegur liði Hrunamanna/Þórs, valinn í liðið.
Athygli vekur einnig að aðeins tvö félög, Njarðvík og Grindavík, eiga fleiri leikmenn í landsliðshópunum tveimur en Hrunamenn. Hrunamenn eiga þrjá leikmenn eins og Fjölnir, KR og Breiðablik.