Selfoss lagði ÍH á útivelli í 1. deild karla í handbolta í kvöld Sigurinn var nokkuð torsóttur en Selfoss náði góðri forystu undir lokin.
Selfyssingar komust í 3-5 en þá tóku ÍH-ingar leikhlé og sneru stöðunni sér í vil í kjölfarið, 7-6. Selfyssingar náðu að jafna fyrir hálfleik en staðan var 10-10 í leikhléi.
Seinni hálfleikur fór hægt af stað og þegar rúmar fimmtán mínútur voru liðnar af honum komust Selfyssingar yfir, 12-13, og létu forystuna ekki af hendi eftir það. Selfyssingar spiluðu fína vörn í seinni hálfleik og munurinn jókst jafnt og þétt. Að lokum skildu fimm mörk liðin að, 21-16.
Elvar Örn Jónsson var markahæstur Selfyssinga með 7 mörk, Jóhann Erlingsson skoraði 6, Guðjón Ágústsson 3, Hergeir Grímsson 2 og þeir Árni Geir Hilmarsson og Daníel Arnar Róbertsson skoruðu sitt markið hvor.
Þetta var þriðji sigur Selfyssinga í röð í deildinni og liðið er nú í 3. sæti með 8 stig.