Þrjár heimakonur semja við Selfoss

Knattspyrnudeild Selfoss hefur samið við þrjár heimakonur sem leika munu með liði félagsins í 1. deildinni á komandi sumri.

Þetta eru þær Katrín Rúnarsdóttir, Friðný Fjóla Jónsdóttir og Ásta Sól Stefánsdóttir.

Katrín er 21 árs gömul framherji sem hefur leikið með Selfossliðinu síðan 2012, rúmlega 50 leiki, en hún á einnig að baki leiki með U17 og U19 ára landsliðum Íslands.

Friðný Fjóla er tvítugur markvörður. Hún hefur verið varamarkvörður í meistaraflokki undanfarin þrjú ár og lykilleikmaður í 2. flokki félagsins. Síðasta haust var hún lánuð til Tindastóls og lék með Stólunum í úrslitakeppni 1. deildarinnar en hefur nú snúið aftur heim.

Ásta Sól er 16 ára miðjumaður, efnilegur leikmaður sem er að stíga sín fyrstu skref í meistaraflokki. Hún er ennþá gjaldgeng í 3. flokki og hlaut meðal annars verðlaun fyrir góða ástundun á lokahófi yngri flokka síðasta sumar. Sú eljusemi hefur nú skilað sér í tveggja ára samningi við deildina.

Fyrri greinÞórir sæmdur norska riddarakrossinum
Næsta greinLions úthlutaði hátt í tveimur milljónum króna