Bæjarráð Sveitarfélagsins Árborgar hefur samþykkt samhljóða að styrkja fimleikadeild Ungmennafélags Selfoss um þrjár milljónir króna vegna kaupa á lendingardýnum við stökkgólf og trampólín.
Dýnurnar sem fyrir eru, eru komnar til ára sinna og ítrekað hefur þurft að gera við þær að því er greint var frá við umsóknina um styrkinn.
Nýju dýnurnar eru keyptar með 30% afslætti en þær voru keyptar hingað til lands í tengslum við Evrópumót í hópfimleikum, sem fram fór í Laugardalshöll í síðasta mánuði.