Átta frjálsíþróttakrakkar frá Selfossi tóku þátt í Stórmóti Gogga galvaska sem fram fór í Mosfellsbænum um helgina. Krakkarnir stóðu sig öll frábærlega og héldu áfram að bæta sig, vinna til verðlauna og setja met.
Halla María Magnúsdóttir, 14 ára, sigraði í kúluvarpi og setti nýtt HSK met þegar hún kastaði 12,16 m og bætti þar með gamla metið um 49 cm. Hún sigraði einnig í 100 m hlaupi á 13,65 sek, spjótkasti með 32,22 m og kringlukasti þegar hún kastaði 29,00 m.
Harpa Svansdóttir, 14 ára, sigraði í langstökki með 4,91 m. Hún varð einnig önnur í kúluvarpi með 9,63, í spjótkasti með 27,75 m og í 100 m hlaupi á 13,80 sem er bæting hjá henni. Í 80 m grindahlaupi bætti hún svo HSK metið þegar hún varð þriðja í mark á 13,58 sek.
Natalía Rut Einarsdóttir, 12 ára, varð önnur í langstökki með 4,12 m og í 60 m hlaupi varð hún þriðja á 9,48 sek sem er bæting hjá henni. Hún bætti sinn árangur einnig í spjótkasti þegar hún kastaði 13,36 m.
Hildur Helga Einarsdóttir, 11 ára, sigraði í kúluvarpi með 7,57 m, varð önnur í spjótkasti með 22,25 m sem er bæting um 1 m og í kringlukasti í 14 ára flokki varð hún þriðja þegar hún kastaði 20,66 m en það er bæting á HSK meti í hennar flokki um rúma fjóra metra.
Helena Ágústsdóttir, 11 ára, varð þriðja í kúluvarpi með 6,29 sem er bæting hjá henni. Hún bætti einnig árangur sinn í spjótkasti með 10,02 m.
Unnur María Ingvarsdóttir, 11 ára, var við sinn besta árangur í öllum greinum en vantaði herslumuninn á að bæta sig.
Hákon Birkir Grétarsson, 11 ára, sigraði í kúluvarpi með 8,67 m og varð í 1.-2. sæti í hástökki með 1,20 m. Í 60 m hlaupi varð hann annar á 9,61 sek og í spjótkasti bætti hann sig er hann kastaði 17,32 m.
Hjalti Snær Helgason, 10 ára, keppti uppfyrir sig með 11 ára strákunum. Hann gerði sér lítið fyrir og varð annar í spjótkasti með stórbætingu þegar hann kastaði 27,24 m. Hann bætti sig einnig í 60 m hlaupi er hann hljóp á 10,49 sek. Hjalti Snær náði síðan í 3. sæti í 800 m hlaupi á tímanum 3:05,82 mín.