Hamarsmenn töpuðu 3-6 gegn Leikni Fáskrúðsfirði í 3. deild karla í knattspyrnu í dag. Leikurinn var mjög kaflaskiptur en gestirnir skoruðu fimm mörk í seinni hálfleik.
Hvergerðingar voru mun sterkari aðilinn fyrstu þrjátíu mínúturnar af leiknum. Samúel Arnar Kjartansson kom Hamri yfir á 16. mínútu eftir góða sendingu frá Albert Eiríkssyni og þremur mínútum síðar fengu Hvergerðingar vítaspyrnu. Ingþór Björgvinsson fór á punktinn og skoraði af öryggi.
Leiknismenn sóttu í sig veðrið síðustu fimmtán mínútur fyrri hálfleiks og náðu að minnka muninn í 2-1 á 37. mínútu. Samúel Arnar náði síðan að lauma inn þriðja marki Hamars á lokamínútu fyrri hálfleiks, eftir slæm mistök varnarmanna Leiknis. Staðan vænleg fyrir Hvergerðinga, 3-1 í hálfleik.
Upphafsmínútur síðari hálfleiks voru mjög fjörugar þar sem liðin skiptust á að sækja og fengu bæði álitleg færi. Leiknismenn minnkuðu muninn í 3-2 á 55. mínútu eftir hornspyrnu og útlit fyrir spennandi leik.
Næstu mínútur voru hins vegar alveg ótrúlegar. Leiknir jafnaði 3-3 eftir hörmuleg mistök í vörn Hamars á 60. mínútu og tveimur mínútum síðar endurtóku gestirnir leikinn pressuðu Hamarsvörnina og skoruðu. Hamarsvörnin lék á reiðiskjálfi í kjölfarið og Leiknismenn nýttu sér það til þess að skora fimmta markið á 64. mínútu og niðurlæging Hamarsmanna algjör. Enginn var þó glaðari en Leiknismaðurinn Kristófer Páll Viðarsson en hann hafði skorað öll mörk sinna manna þegar þarna var komið.
Eftir fimmta mark gestanna róaðist leikurinn nokkuð en bæði lið fengu færi á að bæta við mörkum. Það var þó ekki fyrr en á 90. mínútu að gestirnir fengu dæmda vítaspyrnu að níunda og síðasta mark leiksins leit dagsins ljós. Lokatölur 3-6.
Eftir leikinn er Hamar á botni 3. deildarinnar, án stiga.