Selfyssingar töpuðu sínum fyrsta leik í Inkasso-deildinni í knattspyrnu í sumar þegar baráttuglaðir Gróttumenn mættu á JÁVERK-völlinn í dag og höfðu 0-1 sigur.
Leikurinn fór nokkuð rólega af stað í blíðunni á Selfossi en Gróttumenn björguðu á línu á 16. mínútu eftir skalla JC Mack, sem var einna sprækastur Selfyssinga í dag.
Annars voru Selfyssingar atkvæðalitlir í fyrri hálfleik, héldu boltanum ágætlega á köflum en Grótta átti ágæta spretti inn á milli. Guðjón Orri Sigurjónsson, markvörður Selfoss, þurfti að taka á honum stóra sínum á 38. mínútu þegar gestirnir áttu gott skot utan af velli. 0-0 í hálfleik.
Elvar Ingi Vignisson átti lúmskt skot að marki Gróttu á upphafssekúndum síðari hálfleiks sem markvörður gestanna þurfti að hafa sig allan við að verja. Annars var seinni hálfleikurinn rólegur lengst af en gestirnir komust yfir upp úr þurru á 62. mínútu. Ásgrímur Gunnarsson lék þá á Giordano Pantano úti hægra megin og negldi svo boltanum í fjærstöngina og inn.
Selfyssingar héldu áfram að leita að glufum í gegnum þétta Gróttuvörnina en lentu á vegg og ekkert gekk upp. Mótlætið var farið að fara í skapið á mönnum undir lokin og þrjú rauð spjöld fóru á loft í uppbótartímanum.
Fyrst var Hafþóri Þrastarsyni vísað af velli fyrir mjög óljósar sakir eftir að Sigurður Eyberg Guðlaugsson hafði hent sér í tæklingu. Ekki er ljóst hvort dómarinn ruglaðist á leikmönnum en eftir mikla reikistefnu var Sigurði einnig vísað af velli. Hafþór Sævarsson, liðsstjóri Selfyssinga, fékk einnig rautt spjald í sömu lotu.
Dómarinn tók sér heillangan tíma í uppbótartímanum í alla þessa kortlagningu en bætti svo engu við leikinn og Gróttumenn fögnuðu sínum fyrsta sigri í sumar – um leið og Selfyssingar töpuðu sínum fyrsta leik í deildinni.
Selfoss er í 2. sæti deildarinnar með 6 stig í þéttum hópi liða. Næsti leikur liðsins er útileikur gegn Keflavík að kvöldi uppstigningadags.