Þróttlitlir Selfyssingar mörðu sigur

Selfyssingar voru ekki í stuði í kvöld þegar þeir mörðu Þrótt á heimavelli í 1. deild karla í handbolta. Selfoss var í ströggli allan leikinn en sigraði að lokum, 25-21.

Eins og svo oft áður voru Selfyssingar ekki á tánum á upphafsmínútum leiksins en þessi hefðbundni slaki kafli dróst nú langt frameftir leiknum. Selfoss tók sprett um miðjan fyrri hálfleik og breytti stöðunni úr 6-6 í 10-7 en Þróttarar nýttu sér einbeitingarleysi Selfyssinga og komu til baka og jöfnuðu 12-12. Tvennt gladdi augað í fyrri hálfleik, markvarsla Helga Hlynssonar og lokamark fyrri hálfleiks þegar Einar Pétur Pétursson og Einar Sverrisson splæstu í glæsilegt sirkusmark á lokasekúndu hálfleiksins sem tryggði Selfyssingum 13-12 forystu í leikhléi.

Í seinni hálfleik var sama baráttan í leiknum, Þróttarar voru ákafir og vörðust grimmt en Selfyssingar voru einbeitingarlausir í sókninni, reyndu erfið skot og hittu illa auk. Markvörður Þróttar átti ágætar vörslur og vörn gestanna varði hvert skotið á fætur öðru.

Þegar tíu mínútur voru eftir girtu Selfyssingar sig loksins í brók, breyttu stöðunni úr 16-17 í 20-17 og eftirleikurinn var nokkuð auðveldur. Selfoss hafði fjögurra marka forskot þegar fimm mínútur voru eftir og lokatölurnar urðu 25-21.

Einar Sverrisson var markahæstur Selfyssinga með 8 mörk, Hörður Másson skoraði 7 en aðrir létu lítið fyrir sér fara. Sigurður Már Guðmundsson, Gústaf Lilliendahl og Einar Pétur Pétursson skoruðu allir tvö mörk og þeir Örn Þrastarson, Gunnar Ingi Jónsson, Andri Már Sveinsson og Matthías Örn Halldórsson skoruðu 1 mark hver.

Helgi Hlynsson varði 24 skot í leiknum og var með 53% markvörslu. Selfyssingar geta þakkað honum fyrir stigin tvö sem liðið hirti í kvöld.

Fyrri greinDramatík í Höfninni
Næsta greinFSu og Hamar með sigra